Tilhlýðilegt að setja hér nokkur orð.....

Þegar einungis þrír dagar eru eftir af árinu, er loks ritstíflan brostin. 

Ýmislegt hefur drifið á daga síðan í október.  Vinna og aftur vinna, slátrun, sauðfjár, hrossa og svíns, reyking og frágangur í matargeymslum ýmiskonar.  Að öllu þessu loknu skelltum við okkur í vikuferð til Florída, til að kynna USA fyrir bóndandum.  Þar sem hann hafði jú eytt sumrinu í veikindaleyfi var gráupplagt að stinga af í nokkra daga og láta aðra um börn og bú.  Börnin voru "keyrð út" á nokkra staði og ungt par sett sem ráðsmenn á býlið.  Kindurnar komnar á hús með svampa í afturendanum og ráðsmaðurinn setti bara upp svip þegar honum var tjáð að á hverjum degi þyrfti að skoða hvort svampurinn væri ekki á sínum stað!  Þar sem bóndinn er áhugamaður um ameríska bíla, var gaman að sjá hans litla hjarta taka kipp, þegar einn gamall Bronco sást renna hjá, en landareignina prýða nokkur slík eintök og nokkur meira að segja gangfær!  Jafnvel ljóshærðar ungar lögulegar meyjar vöktu ekki áhuga, ja nema ef þær óku á Ford Mustang... þá mátti svo sem gjóa augunum á eftir bílnum. 

Fríið var vel þegið, og komum við heim úthvíld og sælleg.  Jólaundirbúningurinn gekk fljótt og vel fyrir sig og heimagert svín og hangikjöt bragðaðist mjög vel.  Pakkastríðið tók fljótt af og hafa börnin varla sést síðan, því gjafirnar féllu greinilega í góðan jarðveg.     


sláturgerð á morgun.

Steinsbóndinn er staddur á æskustöðvum sínum til að taka slátur á morgun.  Þar sem ég er ekki húsmæðraskólagengin, nýt ég ráðlegginga og stuðnings frá móður minni, sem lýsti því yfir rétt í þessu, að hún vildi sko ekki for-saumaðar vambir frá SS, henni þætti svo gaman að sauma vambirnar!!  Ómetanlegur eiginleiki, þar sem mér finnst alls ekki gaman að sauma vambir, en þeim mun skemmtilegra að hakka, hræra eða sauma fyrir.  Samningum er lokið við Strandabændur.  Endaði á að versla við tvo.  Hópurinn stækkar því um svar-flekkótta gimbur, mó-botnótta gimbur og mórauðan hrút.  Næst er því að sótthreinsa farartæki, og finna tíma til að fara skemmtiferð og sækja gripina.  Húsbóndinn gafst upp á því að sjá hána liggja á túninu og sló og rúllaði sem óður væri, og fékk 7 rúllur af sparitúninu.... líklega hefur einhverjum þótt skrítið að sjá hann í heyskap 28. september, en nauðsyn brýtur lög. 


Haustverkin og fjárútlát

Þau potast áfram verkin sem teljast til haustverka á bænum.  Búið að halda upp á afmæli heimasætunnar, fyrri hálfleik, en 16 stúlkur ætla að heiðra hana með nærveru sinni á morgun, eftir skóla.  Eins gott að muna að bjóða kisum, hundum og hænum að halda til á snertilausu svæði, ef þau kjósa svo!!  Við húsmóðirin og heimasætan sóttum spariféð á sunnudaginn og settum á túnið.  Það gekk vonum framar, ein móðir tveggja hrúta slapp, en verður sótt seinna með fóðurbætisfötunni sem aldrei klikkar ef í harðbakka slær.  Reiðhestar heimilisins, sem eru komnir í vetrarfrí, þurftu auðvitað að standa í hliðinu þegar kindurnar ætluðu í gegn, en Tása sýndi þeim hver forgangsröðunin væri þennan daginn og rak þá frá svo spariféð kæmist sína leið.  Lömbin væn að vonum, og það verður erfitt að velja þær gimbrar sem eiga að verða framtíðarær heimilisins.  Annars er dægradvölin þessa daga að spjalla við bændur á Ströndum, þar sem fjárfesta á í gimbrum og kynbótahrút af því svæði fyrir veturinn.  Þeir sem til þekkja vita þó að mislitt fé, hvað þá hyrnt er ekki það sem mest er af í þeirri sveit.  Samningar eru þó hafnir við einn mætan bónda sem ætlar að hafa samband eftir helgi, þegar hann hefur litið yfir hópinn sinn, hvort ekki leynist mislit lömb með handföng, eins og 3 stykki.  Gólfið var steypt í fjárhúsunum í síðustu viku svo þetta er allt að koma.


Brunnir reykkofar.....

Steinsbóndinn hefur nú lent í þessu.... fyrst afpantaði húsbóndinn slökkviliðið, því það væri BARA reykkofinn sem væri að brenna.... en þegar jörðin var farin að loga allt í kringum bíla/dráttarvélahræin - lesist verðmætin - hringdi hann á slökkviliðið til að bjarga þeim! 
mbl.is Reykkofi brann til grunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið að taka enda

Sit hér við skjáinn í helli-rigningu og roki.  Haustið virðist vera að taka yfir og frekar kuldalegt um að litast.  Dagurinn í dag búinn að vera frábær.  Fjölskyldan mætti í morgunsárið í Reiðhöllina Svaðastaði til að sýna hluta af bústofninum í "húsdýraþemanu."  Séra Sandholt mætti semsagt með hluta af kvennabúri sínu og afkvæmum, dverghænufjölskylda mætti líka.  Mesta lukku vakti þó títt nefndur Andrés grís, sem sýndi sínar bestu hliðar.  Í næstu stíu voru mánaðar- og tveggja mánaðar gamlir grísir svo fólk gat séð hversu mikið grís stækkar á aldursbilinu eins til fimm mánaða.  Minkarnir sem voru til sýnis voru afar áhugasamir um hænurnar, sem voru í beinum augnkontakt allan daginn.  Kisurnar voru svo hinu megin við hænurnar, en þær héldu þó alveg ró sinni þrátt fyrir nágrannana.  Nú er komið jafnvægi á milli katta og hunda í bílskúrnum.  Þrennt er af hvorri tegund, þrír kettir á móti einum border collie og tveimur labradorum, en það er alveg morgunljóst hvort liðið ræður lögum og lofum á svæðinu.  Kisurnar breytast óðara í "Freyjuketti" sbr. vörumerkið ef labrador nálgast.  Annars átti sér stað mjög skondið augnablik um daginn.  Þá mætti hér í ljósaskiptunum ugla á svæðið og ætlaði greinilega að ná sér í eins og einn kettling í matinn, svona fyrir háttinn.  Vandamálið var að kettirnir voru líka á veiðum, því þeim fannst þessi fugl-asni sem sveimaði lágt yfir þeim afar spennandi og voru alveg tilbúnir að stökkva upp og grípa hann ef hann kæmi nógu nálægt!!  Við vorum því í stúkusæti dágóða stund á meðan uglan hnitaði í hringi yfir kisunum og þær biðu spenntar eftir því að fíflið kæmi nógu nálægt.  Að endingu gafst húsmóðirin upp áður en slys yrði og kallaði litlu tígrisdýrin inn í fyrirhafnarminni kvöldmat.

Svínslegur......

Aldrei áður hef ég haft ali-grís, hvað þá horft á íslenskt svín ganga laust í náttúrunni.  Eftir kynni mín af Andrési get ég fullyrt að svín eru hvorki heimsk né sóðar.  Húsmóðirin er að vísu ekki allskostar ánægð með að hann skuli velja spariblettinn hennar sem klósett, en allavega gerir hann stykkin sín öll á sama stað svo þrifin taka ekki langan tíma.  Um daginn fórum við öll þrjú í gönguferð, húsmóðirin, hundurinn og svínið.  Eftir dágóðan spöl hitti ég kunningja á förnum vegi sem gerðu góðlátlegt grín af félagsskapnum sem ég hafði með mér.  Ég benti þeim á að þeir skyldu spara glósurnar, því svínið væri full eins viturt og hundurinn.  Eitthvað áttu þeir erfitt með að trúa því.  "Andrés, farðu heim" sagði ég þá.  Andrés stoppaði við og horfði á mig.  "Andrés, farðu heim"  Sagði ég þá með meiri þunga.  Þá kom eitt "nöff" og hann trítlaði af stað yfir veginn og niður túnið, í átt að bænum.  "Skilur hann í alvöru hvað þú segir??" sögðu félagarnir þegar þeir voru búnir að ná hökunni af bringunni.  En ekki hvað sagði ég, kotroskin með mig.  Þetta fannst þeim nú merkilegt, og ekki féll eitt styggðaryrði í garð Andrésar eftir þetta.  Það sem þeir ekki vissu var að svín sjá mjög illa, og Andrés treystir á tíkina Tásu í lengri ferðum til að elta.  Þar sem hundurinn tölti heim eftir skipun, trítlaði Andrés auðvitað í humátt, til að týna nú ekki af félaganum sínum..... auðvitað fékk Andrés þó að njóta vafans og er líklega greindasta svín nú um stundir!!


Starfsmaður í þjálfun......

Heyskapur er í fullum gangi á bænum.  Eftir þrotlausar æfingar um helgina, hleypur húsmóðirin vél og vél, og er farin að nota öll heyvinnslutækin, nema rúllubindivélina.  Hún er jú bæði gömul og afar sérvitur, og því betra að færari menn en ég stjórni henni.  Bóndinn er meira að segja farinn að bjóða húsmóðurina til láns á næstu bæi til að raka, svo það hlýtur að vera merki um að hún sé ekki alslæm til vinnu.  Merkilegast finnst mér þó að þessir dráttarvélaframleiðendur, á árunum 1960-1987, sem eru framleiðslutímabil dráttarvélanna á bænum, gátu ekki ákveðið í sameiningu hvar stúturinn á olíutanknum ætti að vera.  Á bílum er þetta nú yfirleitt á afturbrettinu og tilbreytingin fellst í því að muna hvoru megin stúturinn sé.  Að setja olíu á dráttarvél er sko meiriháttar mál.  Annað hvort þarf að lyfta öllu húddinu, til að finna stútinn eða efsta partinum, eða bara taka lokið af stútnum sem stendur upp úr húddinu.... nema CASE!  Nei nei þeir geta ekki verið eins og hinir.. Þar er stúturinn AFTAN á vélinni, sem getur nú verið pínu mál, ef maður er með heyvinnutæki aftaní og getur ekki sett rassinn á vélinni upp að tanknum.  Auk þess sem glussa-stúturinn er rétt fyrir neðan og næsta auðvelt að villast á þeim fyrir svona grænjaxla eins og mig.  Ég skal játa það að leiðbeiningar símleiðis voru nauðsynlegar þegar fyllt var á vélaáhöfn heimilisins í fyrsta skipti!!  

Fokið í flest skjól.

Smalahundi heimilisins var gjörsamlega misboðið í gær.  Fyrir sunnan húsið er gamall sófi sem Tása, smalahundurinn, notar til að hvíla sig eftir að hafa rekið óvelkomnar kindur úr spartúni bóndans.  Þegar hún ætlaði að leggja sig eftir síðasta eftirlitstúr dagsins, var grísinn Andrés búinn að uppgötva þvílík dýrð það er að leggja sig í umræddum sófa.  Þyngdarmismunurinn gerði það að verkum að Tása átti enga möguleika á að helga sér svæðið sitt aftur en gerði þó ítrekaðar tilraunir til að sýna með nærveru sinni, að þetta væri nú eiginlega hennar staður en ekki hans!  Andrés lét sem hann sæi hana ekki, á milli þess sem hann stundi og rumdi af vellíðan yfir því að hafa náð sófanum.  Það er því sýnt að nú verður að finna sófa til að setja í húsið hans, því það er allt eins víst að hálmurinn sé ekki eins lokkandi eftir að hafa prófað þessa sælu!

Heyskapur í mýflugumynd

Ég var varla komin inn úr dyrunum í gær þegar bóndinn ruddist inn og benti mér góðfúslega á þurrkinn sem væri úti!  Þar sem hann er í veikindaleyfi og má fátt gera, er hann sjálfskipaður verkstjóri heimilisfólks.  Það var með hálfum hug sem ég settist í sætið á dráttarvélinni, minnug ófaranna í fyrra.  Allt gekk þetta þó eins og í sögu, heyinu var snúið og bæði vél og heytætla sluppu óskemmd.  Það var nefnilega ekki svo gott í fyrra.  Ég er alin upp í sveit, en þar sem ég á eldri bræður og frændur, var hrífan eina heyvinnutækið sem var eftir handa mér þegar þeir voru búnir að fá úthlutað verkefnum í heyskapnum.  Í fyrra ætlaði því bóndinn að nýta mig til að snúa fyrir sig heyjinu á meðan hann rakaði á öðru túni.  Mótmæli mín og yfirlýsingar um kunnáttuleysi voru látin sem vind um eyru þjóta og leiðbeiningarnar voru:  "Bara gera svona og svona, keyra svo í hringi þangað til öllu hefur verið snúið" Þannig hljóðuðu leiðbeiningarnar.  Gott og vel, ég gerði bara "svona og svona", fór í hringi þar til yfirferð var lokið.  Hafði þó tekið eftir smávegis aukahljóðum sem ágerðust eftir því sem leið á verkið, án þess þó að hafa af því stórar áhyggjur.  Þegar verki er lokið, sé ég að heytætlan hafði sigið niður og var búin að skemma drifskaftið.  Flestir tindanna höfðu einnig ákveðið að yfirgefa sína staði og voru horfnir með öllu.  Bóndinn nálgast nú vélina, frekar skuggalegur og bendir mér að lyfta tætlunni aðeins.  Þar með datt hún í tvo parta, því einhver bolti hafði líka yfirgefið sinn stað.  Svipbrigði bóndans gerðu nú það að verkum að ég var alveg búin að ákveða að fara út úr vélinni hinu megin, ef hann myndi bera því við að reyna opna hurðina á vélinni og segja eitthvað við mig.  Allt slapp þetta þó fyrir horn, þökk sé skilningsríkum bónda, en ég eyddi því sem eftir var kvöldsins að ganga um túnið og tína upp brotna tinda!

Skín við sólu....

Fyrsti dagur með nýja heimilisfesti, hér á Mogga-blogginu.  Hér langar mig að setja inn litla mola úr daglegu lífi mínu.  Sveitalífið blómstrar þessa dagana, hænuungar tísta með mæðrum sínum, kettlingar leika sér upp allar hillur í bílskúrnum og tíkin Tása er í gamnislag við svínið Andrés hvenær sem færi gefst.  Þó Andrés sé örugglega orðinn 50 kíló og Tása nær varla 15 kílóum virðist leikurinn nokkuð jafn.  Alla vega skrækja þau til skiptis ef annað bítur of fast, en rjúka óðara saman aftur.  Ég hafði þau bæði með mér í girðingarvinnu um helgina, og mosaþembur og mýrarskurðir eru algört himnaríki fyrir Andrés.  Enda varð hann mjög sár þegar hann var skilinn eftir næsta dag.  Eftir hávær mótmæli svaf hann í geðvonsku sinni lungann úr deginum og reis ekki upp fyrr en matartíminn var kominn.  Annars er Andrés eins og besti hundur, tekur á móti gestum með dillandi rófu og veit ekkert betra en að liggja á bakinu og láta klóra sér á maganum.  Spariféð komið í úthagann og lömbin orðin nær jafnstór mæðrum sínum.  Lambakjötið verður kryddað með blóðbergi og berjalyngi í haust.... innanfrá!     

Um bloggið

Steinunn Rósa Guðmundsdóttir

Höfundur

Steinunn Rósa Guðmundsdóttir
Steinunn Rósa Guðmundsdóttir
Bóndi í hjáverkum segir sögur úr sveitinni

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband